Í skýjunum

Hér í SPIDER stjórnstöðinni, þ.e.a.s. í lítilli skrifstofukompu á Suðurskautinu, sitjum við og fylgjumst með sms skilaboðum frá SPIDER. Á 15 mínútna fresti berast boð um ástand tilraunarinnar, hitastig, flughæð, stefnu og almenna heilsu sjónaukanna. Á meðan við rýnum í þessi fáorðu skilaboð skanna sjónaukarnir himingeiminn og safna gögnum sem eiga sér enga hliðstæðu. Allt sjálfvirkt. Tilraunin svífur í 35 km hæð yfir sjávarmáli, skýjum ofar og mjakast á 20 km/klst í suðvesturátt. Enn sem komið er ber sérhvert smáskilaboð þess merki að tilraunin sé í toppformi.

Á gamlársdag var SPIDER viðruð í síðasta skipti. Skotbílinn, kallaður „the Boss,“ keyrði okkur tuttugu metra frá flugskýlinu til að prófa sólarrafhlöðurnar og kanna hvort að öll loftnet og GPS kerfi virkuðu sem skyldi. Þetta var síðasta prófraunin fyrir skot og SPIDER fékk fínustu einkunn. Okkur hafði verið sagt að veðurspáin fyrir nýársdag væri slæm; okkur veitti svo sem ekki af smá hvíld fyrir síðasta átakið.

Það breyttist hins vegar um leið og SPIDER var komin aftur inn í flugskýlið. Okkur var sagt að veðurspáin hefði breyst og að morgundagurinn biði upp á hentugt veður. Við vorum himinlifandi en jafnframt svolítið hikandi þar sem að þetta þýddi að við ættum langan dag í vændum. Minn hópur hófst strax handa við að fylla kuldahaldið með 1200 lítrum af fljótandi helíum, átta klukkustunda verkefni, á meðan aðrir kepptust við að bera álhúðuð límbönd á bera fleti eða lagfæra „síðustu“ villurnar í flugkóðanum. Eini tíminn fyrir hvíld gafst rétt í kringum áramótin, ég svaf þau af mér.

Klukkan 03:00 á nýársdag var SPIDER aftur komin út fyrir flugskýlið, í þetta skiptið á leiðinni út á skotpallinn. Mitt verkefni þennan var dag að sjá um að dælan sem að við notum til að halda sjónaukunum okkar köldum á jörðu niðri hegðaði sér eðlilega á meðan hún ferðaðist um borð í skotbílnum. Við vorum komin út á pall um klukkan 08:00 og veðrið var frábært. Allir voru sammála um að þetta hlyti að gerast í dag. Í þann mund sem að átti að hefjast handa við að blása upp loftbelginn byrjaði vindurinn að láta á sér kræla og okkur var sagt að við yrðum að bíða eftir betra veðri.

Dagurinn leið og vindurinn hélt áfram að blása. Ég lá uppi á skotbílnum og hlustaði á niðinn frá dælunni sem hélt lífi í tilrauninni okkar. Endrum og sinnum heyrðist í verkefnisstjóranum í talstöðinni: „engar fréttir“. Það breyttist klukkan 14:00. Síðustu tveir veðurloftbelgir (þeir senda upp loftbelgi á 30 mín fresti til að kanna aðstæður) gáfu merki um bætt skilyrði. Hjólin fóru að snúast af alvöru upp úr 15:00 þegar þeir hófust handa við að dæla milljón rúmmetrum af helíumgasi inn í loftbelginn okkar. Þá vissum við að ekki yrði aftur snúið.

Rétt fyrir skot var okkur gefið merki um að hefjast handa við síðasta gátlistann. Fimm mínútum síðar stóðum við Bill og Ed á jaðri skotsvæðisins. Enginn vindur. Alger þögn. Síðan gerðist þetta

 

Nú sit ég í þessari kompu og horfi á yndislega ómerkilegt graf, eins og ég vil helst sjá það. Fylltar lakkrísreimar og ný íslensk tónlist frá mömmu brúa bilið þangað til að ég kemst heim. SPIDER fór í loftið klukkan 03:59 (á íslenskum tíma) á nýársdegi, 16:59 að staðartíma. Við erum full eftirvæntingar að skoða gögnin, skyggnast enn lengra aftur í tímann — læra meira í dag en í gær.

Gleðilegt nýtt ár!

 

Köngulóarjól

Jólin á Suðurskautinu eru sérstök. Skemmtilegar skreytingar finnast víða og hressir jólasveinar ganga um gólf. Lítið um jólaseríur hins vegar, sólin sér um það. Á meðan hátíðahöldin standa hæst útvarpa hátalarar nærri kapellunni amerískum poppkornjólum á frekar ósmekklegan hátt. Um jólin leysa margir út frídaga og því er fólk yfir höfuð nokkuð glatt. Á aðfangadag kyngdi niður snjó. Steve, sem var á næturvakt, tók virkilega skemmtilegar myndir af SPIDER með snjódrífuna í forgrunni.

SPIDER hópurinn settist að snæðingi á jóladag. Ofnbakaðar nautalundir og krabbakjöt í aðalrétt. Þó ekki skorti vínið tóku okkar menn því afar rólega sé borið saman við þakkargjörðarhátíðina. Við erum á endasprettinum.

Í dag er tilraunin tilbúin og sjö ára vinnu er við það að ljúka. Nú tekur við bið eftir hagstæðum veðurskilyrðum. Á meðan þessi orð eru rituð er 0.9 m/s vindur úr suðri og COSI, næsta tilraunin í röðinni, bíður enn eftir betra veðri. Það er algengt að tilraunirnar fari nokkrum sinnum út á skotpallinn áður en að veðrið nær fullkomnun. Þetta tímabil er afar stressandi þar sem að margt getur farið úrskeiðis á meðan tilraunin sveiflast til og frá neðan úr krana skotbílsins.

Lítil Adelie mörgæs kíkti á okkur hérna á LDB stöðinni í gær. Ég missti mig í ljósmyndun á þessari litlu skeppnu. Ég læt myndirnar tala…

Ferskt loft

Fyrsta tilraunin af þremur fór í loftið nú á fimmtudaginn. Skotið gekk nokkuð vel fyrir sig, þó að vindáttin hafi reyndar breyst skyndilega á meðan loftbelgurinn reis og teygði á strengnum sem að tengir hann við rannsóknartækin. Verkefnið sem sem að lagði þarna af stað heitir ANITA, hér er hægt að fylgjast með ferð þess umhverfis Suðurpólinn. Farið er útbúið loftnetum sem að hlusta eftir útvarpsbylgjum sem að verða til þegar afar orkumiklar fiseindir skella á ísbreiðu Suðurskautslandsins. Með þessu er tilraunin að afhjúpa leyndardóma einhverra orkumestu agna í alheiminum. Myndirnar hér fyrir neðan (fengnar að láni frá Bill) sýna þegar loftbelgurinn hóf för sína.

Fyrr í vikunni komu 10 meðlimir úr fulltrúadeild Bandaríkjaþings til þess að fylgjast með þeim störfum sem að eru fjármögnuð af Bandaríkjunum hér á Suðurskautslandinu. Þessi hópur kíkti á okkur í 15 mínútur og hlustaði á fyrirlestur hjá Bill, leiðbeinandanum mínum og forsvarsmanni SPIDER. Jafnvel þó að rúmur helmingur þessara glerhörðu pólítíkusa hafi orðið til þess að tefja SPIDER verkefnið um heilt ár, þá vorum við sammála um að þetta fólk væri bara nokkuð sjarmerandi og með á nótunum. Það ætti kannski ekki að koma svo mikið á óvart…

SPIDER er hægt og bítandi að verða tilbúin fyrir flug. Sólarhlífin, vængurinn, og sólarrafhlöðurnar eru nú komnar upp. Við fengum okkur ferskt loft á föstudaginn. Það var gaman að fylgjast með speglunum af sólarhlífinni.

Næstu daga munum við nýta til þess að sjá hvernig undirkerfi tilraunarinnar tala saman. Þegar þeirri vinnu er lokið munum við lýsa því yfir við CSBF (loftbelgsarm NASA) að við séum tilbúin fyrir flug. Þá tekur við bið eftir góðu veðri — því sem næst engum vindi —  sem að getur tekið hátt í tvær vikur. Það væri frábært að ef við kæmum tilrauninni í loftið fyrir áramót.

Keisaramörgæsin var snör í snúningum

Á síðustu dögum hafa SPIDER menn unnið mikið verk. Við erum enn þá á fullu við að kvarða sjónaukana en eins og sjá má á þessu myndbandi er sjónaukinn farinn að horfa í kringum sig inni í flugskýlinu. Við vonumst til að vera tilbúin fyrir „lift off“ eftir viku en þó förum við líklega ekki í loftið fyrr en eftir tvær vikur hið fyrsta. Hinar tvær tilraunirnar eru ekki enn komnar í loftið og þær eru á undan okkur í röðinni. Okkur er sagt að veðrið hafi ekki enn boðið upp á geimskot. Þeir sem eru óreyndir undra sig á þeirri staðhæfingu þar sem veðrið hefur leikið við okkar á undanförnum dögum.

Jæja, það hlaut að koma að því. Við rákumst á keisaramörgæs á leiðinni heim frá LDB nú í kvöld. Hún var merkilega fljót að renna sér á mallanum. Sjálfur rann ég á rassinn af undrun þegar mörgæsin tók rás beint á linsuna. Tókst næstum því að ramma fuglinn inn í skýjaborgina. Þetta var ótrúleg upplifun sem að ég gleymi seint.

Kærar aðventukveðjur heim til Íslands!

Sólin er björt og við forðumst hana eins og eldinn

Á þessari breiddargráðu er sólin á lofti allan sólarhringinn. Við pössum okkur þess vegna að snúa sjónaukunum frá sólu eins vel og við getum. Sólin vill hita hluti og þar sem að við höfum lítið sem ekkert andrúmsloft til þess að draga úr hitasveiflum þurfum við að skýla græjunum okkar frá henni. Síðastliðna daga hefur hluti hópsins unnið að smíði sólhlífar. Grindin er úr koltrefjaplasti en hún er síðan klædd með álhúðuðu plasti sem að endurvarpar ljós afar vel. Myndirnar hér fyrir neðan sýna meðal annars alls konar sprell tengt þessari smíði.

Ziggy skrifaði mjög góða færslu um verkefni síðustu daga.

Jeff skrifaði nýlega mjög góða færslu um sjónaukana, hann er líka með sína eigin bloggsíðu þar sem hann fjallar meðal annars um þakkargjörðarhátíðina á ísnum.

Síðan heldur Steve auðvitað áfram að blogga og taka myndir.

 

Hitt og þetta

SPIDER hefur tekið miklum breytingum á undanförnum dögum. Sjónaukarnir sex eru allir orðnir kaldir og kuldahaldið sjálft er komið ofan á kol-trefja-plasts-burðar-virkið sem að gerir okkur kleift að stýra sjónaukanum. Okkur seinkaði um nokkra daga vegna þess að við klúðruðum ákveðnum verkferlum í kælingu tilraunarinnar. Það virðist hins vegar ekki ætla að draga dilk á eftir sér.

Nú taka við þrjár vikur af kvörðun þar sem að við munum meðal annars kanna næmni sjónaukanna. Fljótlega munum við ljúka við smíði sólarskjaldarins, þá fer tilraunin að taka á sig sína lokamynd.

Hér fyrir neðan eru handahófskenndar myndir (með yfirskrift) frá undanförnum dögum.

Þar sem hafísinn mætir íshafinu

Við fórum í magnaðan göngutúr um svæði þar sem þunnur hafísinn, þykk íshellan og strönd Ross eyjunnar mætast. Hafísinn er tæpir tveir metrar á þykkt, hann brotnar upp í lok sumars og gerir byrgðaskipinu kleift að komast að höfninni hér í McMurdo. Íshellan er hins vegar tæpir 100 metrar á þykkt, hún fer hvergi.

Hér er þetta svæði kallað „the pressure ridges“ vegna þess að íshellan fellur um sjálfa sig þar sem hún skellur á strönd Ross eyjunnar. Hér má sjá alls konar ísskúlptúra. Selir halda sig nálægt opum á hafísnum og láta fara vel um sig í sólinni.

.

Heimsókn Weddelsels

Dagurinn byrjaði með heimsókn ungs Weddelsels hingað á LDB stöðina. Okkur er sagt að þetta komi stundum fyrir en það þýðir líka að selurinn hefur ferðast nokkra kílómetra frá næsta opi á hafísnum. Það að selurinn sé kominn alla leiðina til okkar bendir til þess að hann sé líklega týndur. Það var erfitt að horfa upp á þessa skepnu skríða í vitlausa átt.

Á morgun hefjumst við handa við að kæla kuldahaldið niður í 77 Kelvingráður. Það ræðst á næstu dögum hvort að sjónaukarnir sé tilbúnir í geimskot. Við bíðum öll með hjartað í brókunum.