Í skýjunum

Hér í SPIDER stjórnstöðinni, þ.e.a.s. í lítilli skrifstofukompu á Suðurskautinu, sitjum við og fylgjumst með sms skilaboðum frá SPIDER. Á 15 mínútna fresti berast boð um ástand tilraunarinnar, hitastig, flughæð, stefnu og almenna heilsu sjónaukanna. Á meðan við rýnum í þessi fáorðu skilaboð skanna sjónaukarnir himingeiminn og safna gögnum sem eiga sér enga hliðstæðu. Allt sjálfvirkt. Tilraunin svífur í 35 km hæð yfir sjávarmáli, skýjum ofar og mjakast á 20 km/klst í suðvesturátt. Enn sem komið er ber sérhvert smáskilaboð þess merki að tilraunin sé í toppformi.

Á gamlársdag var SPIDER viðruð í síðasta skipti. Skotbílinn, kallaður „the Boss,“ keyrði okkur tuttugu metra frá flugskýlinu til að prófa sólarrafhlöðurnar og kanna hvort að öll loftnet og GPS kerfi virkuðu sem skyldi. Þetta var síðasta prófraunin fyrir skot og SPIDER fékk fínustu einkunn. Okkur hafði verið sagt að veðurspáin fyrir nýársdag væri slæm; okkur veitti svo sem ekki af smá hvíld fyrir síðasta átakið.

Það breyttist hins vegar um leið og SPIDER var komin aftur inn í flugskýlið. Okkur var sagt að veðurspáin hefði breyst og að morgundagurinn biði upp á hentugt veður. Við vorum himinlifandi en jafnframt svolítið hikandi þar sem að þetta þýddi að við ættum langan dag í vændum. Minn hópur hófst strax handa við að fylla kuldahaldið með 1200 lítrum af fljótandi helíum, átta klukkustunda verkefni, á meðan aðrir kepptust við að bera álhúðuð límbönd á bera fleti eða lagfæra „síðustu“ villurnar í flugkóðanum. Eini tíminn fyrir hvíld gafst rétt í kringum áramótin, ég svaf þau af mér.

Klukkan 03:00 á nýársdag var SPIDER aftur komin út fyrir flugskýlið, í þetta skiptið á leiðinni út á skotpallinn. Mitt verkefni þennan var dag að sjá um að dælan sem að við notum til að halda sjónaukunum okkar köldum á jörðu niðri hegðaði sér eðlilega á meðan hún ferðaðist um borð í skotbílnum. Við vorum komin út á pall um klukkan 08:00 og veðrið var frábært. Allir voru sammála um að þetta hlyti að gerast í dag. Í þann mund sem að átti að hefjast handa við að blása upp loftbelginn byrjaði vindurinn að láta á sér kræla og okkur var sagt að við yrðum að bíða eftir betra veðri.

Dagurinn leið og vindurinn hélt áfram að blása. Ég lá uppi á skotbílnum og hlustaði á niðinn frá dælunni sem hélt lífi í tilrauninni okkar. Endrum og sinnum heyrðist í verkefnisstjóranum í talstöðinni: „engar fréttir“. Það breyttist klukkan 14:00. Síðustu tveir veðurloftbelgir (þeir senda upp loftbelgi á 30 mín fresti til að kanna aðstæður) gáfu merki um bætt skilyrði. Hjólin fóru að snúast af alvöru upp úr 15:00 þegar þeir hófust handa við að dæla milljón rúmmetrum af helíumgasi inn í loftbelginn okkar. Þá vissum við að ekki yrði aftur snúið.

Rétt fyrir skot var okkur gefið merki um að hefjast handa við síðasta gátlistann. Fimm mínútum síðar stóðum við Bill og Ed á jaðri skotsvæðisins. Enginn vindur. Alger þögn. Síðan gerðist þetta

 

Nú sit ég í þessari kompu og horfi á yndislega ómerkilegt graf, eins og ég vil helst sjá það. Fylltar lakkrísreimar og ný íslensk tónlist frá mömmu brúa bilið þangað til að ég kemst heim. SPIDER fór í loftið klukkan 03:59 (á íslenskum tíma) á nýársdegi, 16:59 að staðartíma. Við erum full eftirvæntingar að skoða gögnin, skyggnast enn lengra aftur í tímann — læra meira í dag en í gær.

Gleðilegt nýtt ár!

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s