Köngulóarjól

Jólin á Suðurskautinu eru sérstök. Skemmtilegar skreytingar finnast víða og hressir jólasveinar ganga um gólf. Lítið um jólaseríur hins vegar, sólin sér um það. Á meðan hátíðahöldin standa hæst útvarpa hátalarar nærri kapellunni amerískum poppkornjólum á frekar ósmekklegan hátt. Um jólin leysa margir út frídaga og því er fólk yfir höfuð nokkuð glatt. Á aðfangadag kyngdi niður snjó. Steve, sem var á næturvakt, tók virkilega skemmtilegar myndir af SPIDER með snjódrífuna í forgrunni.

SPIDER hópurinn settist að snæðingi á jóladag. Ofnbakaðar nautalundir og krabbakjöt í aðalrétt. Þó ekki skorti vínið tóku okkar menn því afar rólega sé borið saman við þakkargjörðarhátíðina. Við erum á endasprettinum.

Í dag er tilraunin tilbúin og sjö ára vinnu er við það að ljúka. Nú tekur við bið eftir hagstæðum veðurskilyrðum. Á meðan þessi orð eru rituð er 0.9 m/s vindur úr suðri og COSI, næsta tilraunin í röðinni, bíður enn eftir betra veðri. Það er algengt að tilraunirnar fari nokkrum sinnum út á skotpallinn áður en að veðrið nær fullkomnun. Þetta tímabil er afar stressandi þar sem að margt getur farið úrskeiðis á meðan tilraunin sveiflast til og frá neðan úr krana skotbílsins.

Lítil Adelie mörgæs kíkti á okkur hérna á LDB stöðinni í gær. Ég missti mig í ljósmyndun á þessari litlu skeppnu. Ég læt myndirnar tala…

Leave a comment