Dagarnir renna saman í kapphlaupi við tímann

Við urðum fyrir miklum töfum í upphafi verkefnisins vegna þess að gámarnir okkar sátu eftir í Nýja Sjálandi á meðan bæði flugvélar og flugveður voru ósamvinnuþýð. Þegar dótið komst loksins á leiðarenda urðum við að setja í fimmta gír.

Síðustu dagar renna þar af leiðandi saman í eitt. Hvert verkefnið rekur annað. Taka á móti gámum. Pakka upp úr kössum. Setja saman tilraunina o.s.frv. Við vöknum snemma á morgnanna og ferðumst með sérstökum faratækjum (sjá myndir) í 40 mínútur. Endastöðin er LDB (Long Duration Ballooning) stöðin, úti á þykkum hafísnum, í tæplega 20 km fjarlægð frá McMurdo.

Nú eru 18 manns að vinna að því að gera tilraunina tilbúna fyrir flug. Sjónaukarnir eru komnir inn í kuldahaldið, varmahlífarnar eru að smella saman og eftir nokkrar klukkustundur munum við byrja á því að fjarlægja andrúmstloft úr innviðum tilraunarinnar. Ef allt gengur upp þá verða sjónaukarnir orðnir starfhæfir eftir um það bil 7-10 daga.

Kuldahyllingar

Fegurðin er ólýsanleg. Kalt og bjart. Óumdeildur sjóndeildarhringur. Eldfjöll og kuldahyllingar. Hér fyrir ofan er víðmynd (ýtið á myndina) sem ég setti saman úr um það bil 50 smærri myndum. Myndin sýnir u.þ.b. einn þriðja af sjóndeildarhringnum. Snarpar hitastigsbreytingar við yfirborð hafíssins beygja fjallsrætur í fjarska.

 

Útsýnið frá útidyrunum

McMurdo er lítill bær á hjara veraldar en þó má hér finna alls konar amerísk þægindi eins og sjá má á myndinn hér fyrir ofan. Á „sumrin“ húka u.þ.b. 1000 manns á þessum sérstaka stað, aðallega Ameríkanar. Það eru aðallega þrjár ástæður sem að ég kem auga á

  • McMurdo er byrgðastöð fyrir flug á Suðurpólinn (u.þ.b. 1000 km fjarlægð).
  • Hér vinna nokkur hundruð vísindamenn að ýmsum rannsóknarstörfum. Meðal annars sjávarlíffræðingar og sérfræðingar um loftlagsmál.
  • Stöðin var byggð á kaldastríðsárum og það er margt sem bendir til þess að stöðin sé rekin til þess að Bandaríkin viðhaldi fótfestu sinni á meginlandinu.

Hvað sem það það varðar, þá er gaman að vinna hérna og kynnast þeim sérstaka hópi fólks sem að kýs að koma hingað í þrjá mánuði á ári til þess að keyra strætó, reka kaffihús eða elda mat.

 

Fyrstu 7 klukkustundirnar

Við tókum á loft klukkan 01:00 frá Christchurch og lentum á „Pegasus“ flugvellinum við McMurdo stöð um sex tímum síðar. Um það bil 30 manns voru um borð í flugvélinni ásamt tveimur 20 feta gámum og einhverjum öðrum farangri. Þessar C17 flugvélar eru engin smásmíði! Við gátum tekið ljósmyndir í gegnum nokkur kýraugu (sjá fyrir neðan). Flugvöllurinn er langur og vel þjappaður kafli á þykkum hafísnum úti fyrir ströndum Ross eyjunnar (þar sem McMurdo er staðsett).

Þegar við lentum var okkur skipað upp í bíl og keyrð beint á McMurdo stöðina. Þar fórum við yfir allar reglur sem að gilda hér á Suðurskautslandinu. Þar á meðal reglur um endurvinnslu, umgengni í nálægð dýra, o.s.frv. Eftir hádegismat fórum við í stuttan göngutúr þar sem að við rákumst meðal annars á urtu og kóp.

Við erum enn þá að bíða eftir því að LDB stöðin (þar sem að tilraunin okkar verður sett saman) verði opnuð. Slæmt veður og mikill snjór hafa valdið talsverðum seinkunum. Rafmagnið inn í flugskýlið liggur niðri og því gætum við átt von á köldum vinnudögum.

Við vonumst til þess að geta byrjað að vinna á morgun en þeir telja það ólíklegt. Þangað til munum við taka því rólega hér í McMurdo.

Biðin eftir flugi

Okkur er sagt að vera tilbúin klukkan 23:00. Ef að allt gengur upp þá munum við taka af stað eitthvað eftir miðnætti, aðfaranótt þriðjudagsins. Flugið er 5-6 tímar en þeir segja okkur að við megum gera ráð fyrir því að þurfa að snúa við til Christchurch þegar við nálgumst meginlandið. Veðrið heldur áfram að vera leiðinlegt og flugmennirnir taka enga sjensa.

Í gær var okkur úthlutað hlífðarfatnaði. Þar kom lítið á óvart. Þykkar úlpur, snjóbuxur, snjóskór og þar fram eftir götunum. Hlakka til að komast suður 🙂

Næstum komin

Eftir 34 tíma ferðalag, þar á meðal 17 tíma flug frá Dallas til Sydney, erum við loksins komin til Christchurch á Nýja Sjálandi. Á morgun verður okkur úthlutað hlífðarfatnaði fyrir Suðurskautslandið.

Ég er búinn að vera að predika ágæti síðra ullarnærfata á meðal vinnufélaga minna en þeir hlæja bara og segjast ætla að halda sig við flísbuxur og annað gerviefni.

Veðrið á „Ísnum“ hefur verið erfitt og því hefur flugum seinkað talsvert. Við vonumst enn þá til þess að geta flogið á Suðurskautið á mánudaginn (staðartíma) en þó er líklegt að okkur seinki um nokkra daga. Ætla að nota tækifærið og smakka nýsjálenskt lambakjöt.

Heyrumst á Ísnum!

IMG_4117.JPG

Eyðileggingin í miðborg Christchurch er sláandi

Styttist í ‘etta

Það styttist í það að við förum á Suðurskautslandið með SPIDER. Fyrsta hollið mætir á McMurdo stöðina í lok október og bendir allt til þess að við dveljum þar fram í miðjan janúar. Þegar mest liggur við verða 18 vísindamenn úr hópnum á svæðinu, þó að við séum reyndar að berjast fyrir því að fá fleiri. Ég mun líklega setja myndir inn á þessa flickr síðu.

C-130